Enski boltinn

PSG að stela Kante af Arsenal sem vill ekki borga uppsett verð fyrir hann

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
N'Golo Kante var magnaður í ensku úrvalsdeildinni eftir komu sína frá Caen í Frakklandi.
N'Golo Kante var magnaður í ensku úrvalsdeildinni eftir komu sína frá Caen í Frakklandi. vísir/getty
Frakklandsmeistarar Paris-Saint Germain eru að gera sig líklega til að stela franska miðjumanninum N'Golo Kante fyrir framan nefið á Arsenal þar sem Skytturnar vilja ekki borga uppsett verð fyrir leikmanninn.

Riftunarverð Kante hjá Leicester er 20 milljónir punda en berist slíkt tilboð í miðjumanninn magnaða sem sló í gegn á sinni fyrstu leiktíð í úrvalsdeildinni getur Leicester ekki hafnað tilboðinu.

Arsene Wenger hefur mikinn áhuga á að fá Kante til Arsenal en samkvæmt frétt franska blaðsins Le Parisian er Lundúnarliðið ekki tilbúið til að borga 20 milljónir fyrir leikmanninn og reyna að semja um lægri greiðslu.

Arsenal er nýbúið að kaupa Svisslendinginn Granit Xhaka frá Borussia Mönchengladbach og vill mögulega ekki eyða 50 milljónum punda í menn sem spila svipaða stöðu þó Xhaka sé meira teig í teig en Kante varnarsinnaður miðjumaður.

Le Parisian segir að forráðamenn PSG hittu umboðsmenn Kante tvívegis í apríl og eru nú búnir að bjóða Kante enn stærri launapakka en þeir gerðu í upphafi.

Kante virðist sjálfur ætla að nýta sér þetta tækifæri og fara til stærra liðs en hann er nú þegar búinn að hafna nýjum samningi hjá Leicester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×