Enski boltinn

Leicester City búið að selja sinn dýrasta leikmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrej Kramaric.
Andrej Kramaric. Vísir/Getty
Króatinn Andrej Kramaric var í dag seldur frá Leicester City til þýska liðsins 1899 Hoffenheim en þar með hafa ensku meistararnir látið dýrasta leikmann í sögu félagsins fara frá félaginu eftir aðeins 15 spilaða leiki.

Leicester City keypti Andrej Kramaric frá króatíska félaginu HNK Rijeka fyrir níu milljónir punda í janúar 2015. Leicester City borgaði 9 milljónir punda fyrir framherjann og hafði aldrei borgað meira fyrir einn leikmann.

Kramaric gerði þriggja og hálfs árs samning við enska félagið sem átti þar með að gilda út 2017-18 tímabilið. Hann entist þó bara á King Power Stadium í eitt ár.

Andrej Kramaric skoraði 2 mörk í 13 leikjum á 2014-15 tímabilinu en hann spilaði síðan aðeins tvo leiki á meistaratímabili Leicester City og var síðan lánaður til 1899 Hoffenheim 20. janúar.

Andrej Kramaric skoraði 5 mörk í 12 leikjum með Hoffenheim og stóð sig það vel að Þjóðverjarnir vildu halda honum. Félögin hafa nú náð samkomulagi um félagsskipti hans eins og kom fram á Twittersíðu Leicester City.

Andrej Kramaric hefði þurft að spila þrjá leiki í viðbót til að fá gullmedalíu fyrir sigur Leicester City í ensku úrvalsdeildinni á nýloknu tímabili en hann spilaði bara tvo leiki sem þýðir að hann fær enga minjagrip um Leicester-ævintýrið í vetur.

Dýrasti leikmaðurinn í sögu Leicester City sem er enn á málum hjá félaginu er nú Argentínumaðurinn Leonardo Ulloa sem Leicester City borgaði Brighton & Hove Albion  átta milljónir fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×