Erlent

Ósætti við auglýsingabann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jack Dorsey, forstjóri Twitter.
Jack Dorsey, forstjóri Twitter. vísir/EPA
Samfélagsmiðillinn Twitter tilkynnti í gær um blátt bann við auglýsingum rússnesku fréttamiðlanna RT og Sputnik á síðu sinni. „Ákvörðunin var tekin á grundvelli þeirrar endurskoðunar sem við höfum ráðist í eftir forsetakosningar síðasta árs og vegna niðurstöðu bandarískra leyniþjónusta að bæði RT og Sputnik hafi á vegum rússneskra yfirvalda reynt að trufla kosningarnar,“ sagði í tilkynningunni.

Sputnik hafði ekki tjáð sig um ákvörðunina í gær en á vefsíðu RT birtist grein þar sem sagði að miðillinn hefði aldrei brotið auglýsingareglur Twitter og þaðan af síður dreift röngum upplýsingum vísvitandi.

Til stendur að fulltrúar Twitter mæti fyrir upplýsingamálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í næstu viku ásamt fulltrúum Facebook og Google til að ræða hvernig Rússar notuðu miðla fyrirtækjanna til að dreifa áróðri fyrir forsetakosningarnar. Fyrr í mánuðinum sagði varaformaður nefndarinnar, Mark Warner, að fyrsta viðtalið við fulltrúa Twitter hefði valdið sér vonbrigðum og ekki verið fullnægjandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×