Erlent

Írakar krefjast enn ógildingar kosninganna og hafna tilboði Kúrda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks.
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks. vísir/EPA
Yfirvöld í Írak höfnuðu í gær tilboði yfirstjórnar írakska Kúrdistans um að „frysta“ niðurstöður kosninga á svæðinu um sjálfstæði þess í því skyni að hægt væri að ræða málin í sameiningu. „Við samþykkjum ekkert annað en ógildingu kosninganna og fulla virðingu fyrir íröksku stjórnarskránni,“ sagði Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, í gær.

Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði vildi að sjálfstæði yrði lýst yfir. Yfirvöld í Írak hafa hins vegar ítrekað lýst því yfir að kosningarnar hafi verið ólöglegar og því ætti að ógilda þær.

Tilboð Kúrda var lagt fram á þriðjudagskvöld í kjölfar þess að írakski herinn, að skipun al-Abadi, hertók svæði sem Kúrdar og Íraksstjórn hafa deilt um. Lögregla, sérsveitir og hersveitir sjía-múslima studdu Íraksher í aðgerðunum sem kostuðu tugi lífið. Kúrdar buðust til þess að frysta niðurstöðurnar í von um að „koma í veg fyrir frekara blóðbað“ og vildu eins og áður segir fá Íraka til viðræðna við sig um framhaldið.

Bandaríkjamenn, sem líkt og flest ríki heims voru mótfallin kosningunum, litu þetta tilboð jákvæðum augum og hvöttu Íraksstjórn til þess að taka því. BBC greinir frá því að þingmaður sem stendur al-Abadi nærri, Ali al-Alaq, hafi í gær varað við því að svokölluð frysting niðurstaðanna myndi skapa „tímasprengju sem Kúrdar gætu varpað á ríkisstjórnina hvenær sem þeir vildu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×