Íslenski boltinn

Íþróttir á Íslandi varnarlausar gegn hagræðingu úrslita

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Már Björgvinsson vann lokaverkefni sitt í lögfræði við Háskólann í Reykjavík um reglur íslenskra íþróttasambanda um hagræðingu úrslita í íþróttaviðburðum hér á landi.
Arnar Már Björgvinsson vann lokaverkefni sitt í lögfræði við Háskólann í Reykjavík um reglur íslenskra íþróttasambanda um hagræðingu úrslita í íþróttaviðburðum hér á landi. Vísir/Anton
Arnar Már Björgvinsson, knattspyrnumaður úr Stjörnunni og laganemi, lauk um áramótin við lokaverkefni sitt en það fjallar um hvernig lögum og reglum er háttað á Íslandi í tengslum við hagræðingu úrslita og hvort þær séu stakk búnar til að takast á við slík mál, ef upp kæmist að reynt hefði verið að hagræða úrslitum íþróttaviðburða hér á landi.

Þessi málefni hafa verið til umfjöllunar í vikunni eftir að niður­stöður rannsóknar um þátttöku knattspyrnumanna á Íslandi í peningaspilum voru birtar. Í ljós kom að stór hópur, aðallega karlmenn, tekur þátt í því að veðja á úrslit leikja á erlendum veðmálasíðum. Sumir viðurkenndu að hafa veðjað á úrslit eigin leikja. Arnar segist sjálfur hafa reynslu af því að hafa veðjað á leiki sér til gamans, eins og svo margir aðrir gera í knattspyrnuheiminum.

Eins og gefur að skilja er viðfangsefnið stórt og mikið enda getur veðmálastarfsemi haft margvísleg áhrif á íþróttir, bæði hér á landi og annars staðar. Arnar skoðaði sérstaklega hvernig reglur íslenskra íþróttasambanda, til að mynda ÍSÍ og KSÍ, taka á þessum málaflokki í sínu regluverki. Hann segir þó að í fyrstu hafi hann kynnst því hversu stutt á veg þessi málaflokkur er kominn hér á landi.

„Þetta er nýtt viðfangsefni og svo lítið búið að fjalla um þetta á alþjóðlegum vettvangi – og ekkert á Íslandi. ÍSÍ hefur haldið nokkrar málstofur en það er ekkert útgefið efni til á Íslandi um þetta,“ segir Arnar. „En nú átta menn sig á því hversu mikið vandamál þetta er. Sérstaklega með tækninýjungum sem gera fólki kleift að veðja á alls kyns hluti í leiknum, til dæmis úr stúkunni með símann í hendinni. Það hefur aukið vinsældir veðmála mikið.“

Arnar vísar til þess að í dag er ekki eingöngu hægt að veðja um úrslit leiks, heldur hver skori næsta mark, fái næstu áminningu eða taki jafnvel næsta horn. Þannig mætti lengi telja.

Reglubálkur í Danmörku

Ísland er aðili að samningi Evrópuráðs um hagræðingu úrslita í íþróttakeppni og fyrir rúmu ári síðan var haldin málstofa á vegum ÍSÍ þar sem kvað að mörgu leyti við sama tón og í máli Arnars – að hættan sem steðjar að íslenskum íþróttum sé veruleg og að regluverkinu sé ábótavant.

„Mín niðurstaða er í grófum dráttum sú að þau lög og reglur sem eru í gildi séu ekki fullnægjandi í baráttunni gegn hagræðingu úrslita, sérstaklega reglur íþróttasambandanna. ÍSÍ hefur til að mynda staðið sig vel í lyfjamálum en þessi málaflokkur hefur ekki fengið mikla athygli. Það er ekki að finna neina heildstæða reglu innan ÍSÍ um hagræðingu úrslita,“ segir hann.

Til samanburðar skoðaði Arnar umhverfið í nágrannalöndunum. „Árið 2013 gaf danska íþróttasambandið út regluverk sem telur 69 málsgreinar. Þar er farið afar skipulega yfir allt sem tengist hagræðingu úrslita og skipuð var sérstök nefnd sem ætlað er að taka á málum sem tengist háttseminni.“

Veðmál teygja anga sína inn í fjölda íþrótta en eru líklega vinsælust í knattspyrnunni. KSÍ hefur í sínum lögum viðurlög gegn því að verða uppvís að hagræðingu úrslita leikja en Arnar segir að þær gangi ekki nógu langt. „Það er erfitt fyrir einn leikmann af þeim 22 sem eru á vellinum að hafa áhrif á úrslit leiksins. En hann getur auðveldlega haft áhrif á stök atvik – hornspyrnur, innköst og fleira slíkt. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins tekur það ekki tillit til slíkra mála,“ segir Arnar og bætir við að þetta sé aðeins eitt dæmi af mörgum sem hægt væri að sýna fram á.

Lögregla þarf meiri heimildir

Eitt stærsta vandamálið sem blasir við þegar grunur vaknar um að úrslitum íþróttaviðburðar hafi verið hagrætt er hvernig eigi að sanna sekt viðkomandi.

„Hagræðing úrslita er brot á refsilöggjöfinni enda eðli brotanna að þau eru svikabrot. En til að geta sannað refsivert athæfi þarf að auka heimildir lögreglu til að rannsaka svona mál, til dæmis með hlerunum og öðru.

Á undanförnum árum hefur reglulega komið fram í fréttum að grunsemdir um hagræðingu hafi komið upp í tengslum við íslenska knattspyrnu. En það hefur aldrei farið lengra og knattspyrnumaður á Íslandi hefur aldrei verið dæmdur í leikbann vegna hagræðingarmála, samkvæmt upplýsingum frá KSÍ.

Arnar segir hættuna verulega, ekki síst þar sem fjölmargir íslenskir knattspyrnumenn eru í hættu á að leiðast út í brot sem þessi. „Þeir sem eru líklegastir til að brjóta af sér eru leikmenn sem fá lítið sem ekkert greitt. Þeir eru fjölmargir hér á landi, sérstaklega þeir sem eru í neðri deildunum á Íslandi,“ segir Arnar en veðjað er á leiki í öllum deildum hér á landi auk þess sem einnig er að veðjað á leiki í yngri flokkum sem og æfingaleiki.

„Fleira kemur til, eins og að á Íslandi er spilað yfir sumartímann þegar flestar aðrar deildir eru í fríi. Ég tel að það sé mikil þörf fyrir að fara vandlega í saumana á þessu, enda sýna dæmin að hættan er svo sannarlega fyrir hendi.“


Tengdar fréttir

Freistingin er mikil fyrir íslenska knattspyrnumenn

Knattspyrnumenn á Íslandi hafa í nokkrum mæli veðjað á úrslit eigin leikja. Engar sönnur hafa verið færðar á að úrslitum leikja hafi verið hagrætt hérlendis en freistingin til þess hjá íslensku knattspyrnufólki er mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×