Innlent

Lögreglumaður fluttur á slysadeild

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglubifreið nálgast lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Lögreglubifreið nálgast lögreglustöðina á Hverfisgötu. Vísir/Ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt eins og greint var frá í morgun. Alls voru 8 handteknir grunaðir um ölvunar- eða fíkniefnaakstur og var öllum sleppt að loknum sýnatökum nema einum.

Í því máli var um eftirför að ræða og ökumaðurinn ók á lögreglubifreið með þeim afleiðingum að lögreglumaður slasaðist á fæti og þurfti að fara á slysadeild. Ökumaðurinn náðist að lokum eftir að hafa hlaupið frá bifreiðinni. Hann er kærður fyrir fjöldann allan af umferðar- og hegningarlagabrotum.

Sjá einnig: Allar fangageymslu fullar í nótt

Í miðborginni voru þrjár líkamsárásir tilkynntar til lögreglu. Grunaðir gerendur í tveimur málum voru handteknir á vettvangi og eru vistaðir í fangageymslu. Engar frekari upplýsingar eru um meiðsli. Fjórir voru þar að auki vistaðair í fangageymslu fyrir ölvun og óspektir.

Allar fangageymslur á Hverfisgötu fylltust í nótt og var því brugðið á það ráð að opna fangageymslur í Hafnarfirði.

Þá leiddu hávaðakvartanir í fjölbýlishúsum til þess að tveir menn voru handteknir í sitthvoru málinu. Annar harðneitaði að lækka og hrækti á lögreglumann. Hinn var gestkomandi í leiguíbúð og hafði lagt hana gjörsamlega í rúst. Þeir voru líka vistaðir í fangageymslu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×