Cristiano Ronaldo tryggði Evrópumeisturum Portúgals sigur á Rússlandi, 0-1, í A-riðli Álfukeppninnar í fótbolta í dag. Leikið var á Otkrytiye Arena í Moskvu.
Aðeins átta mínútur voru liðnar af leiknum þegar Ronaldo skallaði fyrirgjöf Raphaëls Guerreiro framhjá Igor Akinfeev í marki Rússa.
Þetta var 74. mark Ronaldos fyrir portúgalska landsliðið en hann er langmarkahæstur í sögu þess.
Þetta reyndist eina mark leiksins. Evrópumeistararnir eru á toppi A-riðils með fjögur stig, einu stigi á undan Rússum sem eru í sætinu fyrir neðan.
Klukkan 18:00 mætast Mexíkó og Nýja-Sjáland í sama riðli.

