Fótbolti

Davíð um atvikið undir lokin: Bara út í hött

Stefán Árni Pálsson skrifar
Davíð Þór er fyrirliði FH.
Davíð Þór er fyrirliði FH. vísir/stefán
„Þetta er heldur betur svekkjandi, sérstaklega þar sem við spiluðum fínan leik,“ segir Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir tapið gegn Maribor í kvöld. FH tapaði 1-0 í Kaplakrika og því einvíginu 2-0.

„Við náðum að setja smá pressu á þá undir lokin en án þess að skapa okkur nægilega hættuleg færi. Það sem er svo svekkjandi er að vera svona nálægt þessu en fá ekkert út úr þessu einvígi.“

Davíð segir að það hafi farið rosalega mikil orka í það að verjast í kvöld.

„Við vorum oft of neðarlega og á þeim augnablikum sem við fengum til að refsa þeim vorum við kannski of neðarlega á vellinum til að fylla teiginn almennilega.“ Fyrirliðinn segir að FH-liðið sé klárlega nægilega gott til að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

„Við gáfum allt í þennan leik í kvöld og því miður var það ekki nóg en við eigum allavega tvo leiki eftir og það verður spennandi að sjá hverjum við mætum næst.“

Einkennilegt atvik átti sér stað undir lok leiksins eftir að Maribor skoraði eina mark leiksins en þá hlupu nokkrir varamenn inn á völlinn til að fagna með liðsfélögum sínum. Davíð var ekki hrifinn af þeirri hegðun.

„Ég ætla svosem ekki að fara endurtaka það sem ég sagði við þá. Þetta fór bara í taugarnar á mér. Flott hjá þeim að vera komnir áfram en maður hleypir ekki inn á með allan bekkinn. Mér finnst það bara út í hött.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×