IFK Göteborg er aðeins að rétta úr kútnum í sænsku úrvalsdeildinni en í kvöld vann liðið 2-1 sigur á AIK á heimavelli.
Elías Már Ómarsson kom inn á sem varamaður á 83. mínútu í liði Göteborg sem hefur unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum. Með sigrinum í kvöld komst Göteborg upp í 9. sæti deildarinnar.
Haukur Heiðar Hauksson sat allan tímann á varamannabekknum hjá AIK sem er í 2. sæti deildarinnar.
Adam Örn Arnarson, Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson voru allir í byrjunarliði Aalesund sem tapaði 3-0 fyrir Stabæk í 16-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar.
Adam Örn og Daníel léku allan leikinn en Aron Elís var tekinn af velli í hálfleik.
