Innlent

Nýir tappar á Floridana-söfum eiga að koma í veg fyrir slys

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tapparnir skutust af miklu afli í andlitin með alvarlegum afleiðingum.
Tapparnir skutust af miklu afli í andlitin með alvarlegum afleiðingum. Vísir
Sérstakar afloftunarraufir á flöskum Floridana-safa eiga að koma í veg fyrir að slys verði af völdum tappa. Floridana safar eru nú komnir aftur á markað með nýrri tegund tappa.

Tveir slösuðust alvarlega á auga í ágúst eftir að hafa opnað Floridana ávaxtasafa í plastflösku með þeim afleiðingum að tappinn skaust í auga þeirra. Yfirþrýstingur hafði myndast í flöskunni.

Ölgerðin hefur kynnt nýja tappa til leiks.Mynd/Ölgerðin
Í kjölfarið innkallaði Ölgerðin alla ferska safa af markaði. Á Facebook-síðu Ölgerðarinnar segir að undanfarnar vikur hafi starfsfólk fyrirtækisins unnið að því að endurskoða framleiðsluferli safans, geymslu, dreifingu og umbúðir til að koma í veg fyrir að slys á borð við þau sem urðu gætu endurtekið sig.

„Floridana safar eru nú komnir aftur á markað með nýrri tegund tappa. Nýju tapparnir eru með sérstakar afloftunarraufar sem gera umbúðirnar öruggari en þær voru áður,“ segir á Facebook-síðu Ölgerðarinnar.

Þá eru neytendur einnig hvattir til þess að tryggja það að Floridana-safar í flöskum séu kælivara og meðhöndla skuli þá sem slíka enda geti safi utan kælis gerjast og þannig myndað yfirþrýsting.

Biðst Ölgerðin afsökunar á því að „hafa sent frá sér vöru sem uppfyllti ekki væntingar neytenda þrátt fyrir stranga gæðastaðla.“

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi var möguleiki á því að tappinn á flöskunum skytist af með miklu afli en á myndbandinu má sjá safa sem hafði verið geymdur í bíl í um tvær vikur.


Tengdar fréttir

Neytendur hvattir til að farga Floridana í plastflöskum

Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur tilkynnt matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um innköllun á Floridana ávaxtasafasafa í plastflöskum þar sem dæmi eru um að yfirþrýstingur hafi myndast í flöskunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×