Innlent

Mistök banka leystu ábyrgðarmann undan skuld

Kjartan Kjartansson skrifar
Málið á rætur sínar að rekja til Sparisjóðs Norðurlands en hann rann inn í Landsbankann árið 2015.
Málið á rætur sínar að rekja til Sparisjóðs Norðurlands en hann rann inn í Landsbankann árið 2015. Vísir/Andri Marinó
Rangt eyðublað sem Sparisjóður Norðurlands lét karlmann skrifa undir til að ábyrgjast skuld fyrirtækis sem hann átti hlut í varð til þess að maðurinn sleppur við rúmlega 1,1 milljónar króna skuld. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi að bankinn yrði að taka á sig ábyrgð á mistökunum.

Maðurinn hafði samþykkt að gangast í sjálfsskuldarábyrgð fyrir skuld fyrirtækis sem hann hafði rekið með fyrrverandi eiginkonu sinni. Eftir skilnað þeirra var maðurinn enn skráður eigandi að helming fyrirtækisins þó að hann hefði ekki lengur neina aðkomu að því.

Eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota hugðist Landsbankinn, sem Sparisjóðurinn hafði þá runnið inn í, innheimta skuldina hjá manninum.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að sjálfskuldarábyrgðin var í þágu atvinnureksturs félags sem maðurinn átti helming í og því eigi ákvæði um greiðslumat í lögum um ábyrgðarmenn ekki við í málinu.

Í yfirlýsingunni um sjálfskuldarábyrgðina, sem var á stöðluðu eyðublaði sparisjóðsins, var hins vegar gert ráð fyrir því að greiðslumat færi fram. Maðurinn kvaðst ekki vita hvernig greiðslumat gengi fyrir sig og hann hefði gert ráð fyrir því að það færi fram í framhaldinu. Það var þó aldrei gert.

Hefði mögulega ekki gengist undir ábyrgð

Héraðsdómur segir að manninum hafi ekki verið kunnugt um rekstrarvanda fyrirtækisins á þeim tíma sem hann gekkst undir ábyrgðina. Sparisjóðnum sem viðskiptabanka félagsins hafi hins vegar hlotið að vera kunnugt um stöðu félagsins og hefði greiðslumat farið fram og stefnda kynntar niðurstöður þess væri óvíst hvort hann hefði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgðina.

Í málflutningsræðu lögmanns Landsbankans kom fram að það hefði verið „óheppilegt“ hvaða eyðublað var notað. Héraðsdómur taldi að bankinn yrði að bera hallann af því að hafa notað umrætt skjal og látið hjá líða að kanna greiðslugetu skuldara og gera manninum grein fyrir niðurstöðu þeirrar könnunar.

Því var maðurinn sýknaður af kröfum bankans. Landsbankinn þarf jafnframt að greiða málskostnað sem nemur 900.000 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×