Erlent

Reyndu að drepa bekkjarsystur sína í nafni myrkraveru af netinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anissa Weier, sem nú er fimmtán ára gömul,  verður vistuð á geðsjúkrahúsi í að minnsta kosti þrjú ár.
Anissa Weier, sem nú er fimmtán ára gömul, verður vistuð á geðsjúkrahúsi í að minnsta kosti þrjú ár. Vísir/Getty
Kviðdómur í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að stúlka, sem játaði að hafa átt aðild að stunguárás árið 2014, hafi glímt við andleg veikindi þegar árásin var framin. Tvær stúlkur voru ákærðar fyrir tilraun til manndráps en þær segja árásina hafa verið gerða í nafni óhugnanlegrar persónu af internetinu.

Anissa Weier, sem nú er fimmtán ára gömul, játaði aðild sína að árásinni í ágúst síðastliðnum, að því er fram kemur í frétt BBC. Hún sagðist þó ekki bera ábyrgð á gjörðum sínum á grundvelli andlegra veikinda. Weier verður því vistuð á geðsjúkrahúsi í að minnsta kosti þrjú ár.

Stúlkurnar tvær stungu fórnarlamb sitt, sem einnig var bekkjarsystir þeirra, 19 sinnum í maí 2014. Þær voru allar tólf ára þegar árásin var framin en fórnarlambið hlaut áverka á handleggjum, fótleggjum og kviði. Við yfirheyrslur vegna árásarinnar kom fram að stúlkurnar hefðu talið sig þurfa að ráða bekkjarsystur sína af dögum vegna tryggðar við „Slender Man“, hryllingspersónu af internetinu.

„Slender Man“ er mjóslegin, myrk vera sem birtist fyrst á myndum, teikningum og greinum á internetinu árið 2009.

Weier og meint samverkakona hennar, Morgan Geyser, sögðust hafa lesið um „Slender Man“ í smásögu á vefnum og þannig hafa fengið innblástur til að ráðast á bekkjarsystur sína.

Geyser hefur neitað sök í málinu en réttarhöld yfir henni hefjast í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×