Fótbolti

Albert Guðmundsson á leið til AZ Alkmaar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Albert Guðmundsson fer úr hvítu og rauðu í rautt og hvítt í öðru liði.
Albert Guðmundsson fer úr hvítu og rauðu í rautt og hvítt í öðru liði. vísir/getty
Albert Guðmundsson, landsliðsframherji í fótbolta, er að færa sig um set í hollensku úrvalsdeildinni en hann er á leiðinni til AZ Alkmaar frá PSV Eindhoven, samkvæmt heimildum Vísis.

AZ borgar hollensku meisturunum tvær milljónir evra eða 250 milljónir króna, samkvæmt heimildum Vísis, fyrir Albert sem gengst undir læknisskoðun á morgun og skrifar í kjölfarið undir samning við félagið.

Albert, sem er 21 árs gamall, fékk ekki mörg tækifæri með aðalliði PSV á síðustu leiktíð en fær nú væntanlega fleiri mínútur enda AZ að borga vel fyrir íslenska framherjann.

Albert var með Íslandi á HM.Vísir/Vilhelm
KR-ingurinn uppaldi gekk í raðir Heerenveen árið 2013 en fór svo til PSV fyrir þremur árum og hefur verið stjarnan í varaliði félagsins sem spilar í næst efstu deild hollenska boltans.

Hann er fastamaður í U21 árs landsliði Íslands en hann þreytti frumraun sína með A-landsliðinu í Kínabikarnum í janúar í fyrra og vann sér svo inn sæti í HM-hópnum eftir góða frammistöðu í vináttuleikjum ársins.

AZ Alkmaar er þekkt fyrir að vera frábær staður fyrir Íslendinga en leikmenn á borð við Grétar Rafn Steinsson, Kolbein Sigþórsson og Jóhann Berg Guðmundsson hafa allir gert garðinn frægan með hollenska liðinu.

Þá er AZ þekkt fyrir að sækjast í unga íslenska leikmenn eins og Kolbein og Jóhann Berg en Jónatan Ingi Jónsson, leikmaður FH, kom heim frá Alkmaar í byrjun sumars.

AZ Alkmaar hafnaði í þriðja sæti hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Liðið er úr leik í Evrópu í ár en það tapaði í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar fyrir Kairat frá Kasakstan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×