Fótbolti

Ríkisstjórn Gana leysir stjórn knattspyrnusambands landsins frá völdum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndinni sem fjallar um spillingu í afríska fótboltanum.
Skjáskot úr myndinni sem fjallar um spillingu í afríska fótboltanum. bbc
Ríkisstjórn Gana hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem greint er frá því að hún hafi ákveðið að leysa stjórn knattspyrnusambands landsins frá völdum vegna spillingar.

Greint var frá því í dag að Kwesi Nyantakyi, forseti Knattspyrnusambands Gana, hefði tekið við mútum en í heimildarmynd sem frumsýnd verður í dag og fjallar um spilinguna í afrískum fótbolta sést Nyantakyi taka við tæpum sjö milljónum króna í beinhörðum peningum.

Ganamenn mæta íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld sem er seinasti leikur íslenska liðsins í undirbúningnum fyrir HM í Rússlandi. Ekki hefur fengist staðfest hvort formaður knattspyrnusambandsins sé staddur hér á landi.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar Gana, sem ganverskur íþróttafréttamaður birtir á Twitter-síðu sinni, er farið hörðum orðum um knattspyrnusambandið.

Þar segir að ríkisstjórnin sé bálreið og í áfalli vegna þeirra upplýsinga sem koma fram í fyrrnefndri mynd.

 

„Heimildarmyndin afhjúpar hversu hrikalega illa rekið Knattspyrnusamband Gana er en starfsemin einkennist af svindli, spillingu og mútum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Fyrir utan að vera formaður Knattspyrnusambands Ghana er Nyantakyi einnig í nefnd hjá FIFA og má því ekki þiggja neinar peningagjafir. Auk þess að sjást taka við peningum í heimildarmyndinni segist hann vera með forseta landsins í vasanum og gegn sanngjarnri greiðslu geti hann hjálpað fyrirtækjum og verktökum við að ná samningum við ríkið.

Forsetinn er sagður hafa brjálast vegna þessara ummæla og gefið út handtökuskipun á Nyantakyi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×