Englendingar mæta Kólumbíu í 16-liða úrslitum á HM í Rússlandi í kvöld. Landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate segir Englendinga í dauðafæri að rjúfa bölvunina sem virðist liggja á liðinu í útsláttarkeppnum.
Englendingar fara oftast nokkuð auðveldlega í gegnum undankeppnir stórmóta, tapa fáum sem engum leikjum og öruggir inn á lokakeppnir. Þar hefur þeim hins vegar gengið frekar illa og þeir hafa ekki unnið leik í útsláttarkeppni síðan 2006.
„Þetta er algjört dauðafæri fyrir þetta lið að komast lengra en reyndari lið hafa gert á undan þeim,“ sagði Southgate á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Kólumbíu.
„Strákarnir eru í tækifæri til þess að skrifa sig í sögubækurnar. Það sem ég vil frekar alls annars er að við nálgumst þennan leik eins og alla aðra í keppninni. Það ætti ekki að breytast núna og við ættum í raun að vera frjálsari þegar í útsláttarkeppnina er komið.“
Stuðningsmenn Englands hafa talað mikið um hvað leiðin í undanúrslitin sé auðveld þetta skiptið en Southgate reynir að halda leikmönnum sínum á jörðinni.
„Við eigum erfiðan leik fyrir höndum gegn andstæðingi sem við berum virðingu fyrir. Við verðum að einbeita okkur að okkar fótbolta og okkar leikstíl,“ sagði Gareth Southgate.
Southgate: England í dauðafæri
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
