Erlent

Vilja fresta atkvæðagreiðslu um Kavanaugh

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Skyndilega er orðið tvísýnt um skipan Kavanaugh í embætti.
Skyndilega er orðið tvísýnt um skipan Kavanaugh í embætti. Vísir/EPA
Tilnefning Brett Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara Bandaríkjanna er nú í uppnámi eftir að sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford steig fram með ásakanir um gróft kynferðisofbeldi gegn sér sem að hennar sögn átti sér stað fyrir um þremur áratugum síðan.

Sjá: „Kona stígur fram undir nafni og sakar dómaraefni trump um kynferðisárás.“

Til stendur að greiða atkvæði um skipan Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara á fimmtudaginn en um er að ræða eitt valdamesta embætti Bandaríkjanna.

Demókratar í Bandaríkjaþingi vilja að atkvæðagreiðslunni verði frestað til að málið geti hlotið rannsókn og nú hafa nokkrir þingmenn Repúblikana tekið undir ákall um frestun atvkæðagreiðslunnar.

Jeff Flake, öldungardeildarþingmaður Repúblikana, er á meðal þeirra sem kalla á eftir frestun atkvæðagreiðslunnar en hann situr í dómsmálanefnd þingsins sem fer með staðfestingu hæstaréttardómara.

Þá hefur Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump, Bandaríkjaforseta sagt að ásökununum beri að taka alvarlega. „Það má ekki hafa hana að háði. Hún ætti að bera vitni undir eið í þinginu en það veltur allt á dómsmálanefnd þingsins sem ákvarðar fyrirkomulagið,“ sagði Conway í samtali við blaðamenn í dag. „Kavanaugh ætti einnig að bera vitni og svara ásökunum um þetta 36 ára gamla mál.“ 

Lögmaður Ford segir að hún sé tilbúin til að mæta fyrir dómsmálanefnd þingsins og bera vitni um málið. Kavanaugh hafnar öllum ásökunum en segist einnig tilbúinn til að bera vitni um málið.


Tengdar fréttir

Ætla ekki að draga tilnefningu Kavanaugh til baka

Repúblikanar ætla að halda því til streitu að kosið verði um hæfi Brett Kavanaugh hæstaréttardómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að gegna embætti dómara við hæstarétt. Kjósa á um hæfi hans á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×