Óþekktum aðila var hleypt inn á heimili á Akureyri fyrir viku síðan eftir að hafa sagst vera kominn til að lesa þar af mælum. Síðar kom í ljós að maðurinn hafði villt á sér heimildir og væri ekki á vegum orku- og veitufyrirtækisins Norðurorku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra sem greinir frá því að barn á heimilinu hafi komið til dyra og hleypt umræddum manni inn fyrir og síðan út aftur.
Í samtali við Vísi áréttar lögregla að ekki sé vitað til þess að maðurinn hafi tekið eitthvað af heimilinu, né hvert ætlunarverk hans hafi verið með heimsókninni. Lögreglan á Norðurlandi eystra notar tækifærið og minnir íbúa í umdæminu á að starfsmenn Norðurorku gangi í merktum klæðnaði og séu ávallt með starfsmannapassa meðferðis.
Að lokum hvetur lögreglan fólk til að læsa og tryggja að enginn óviðkomandi komist inn í hús þeirra. Foreldrar eru hvattir til að brýna fyrir börnum sínum að hleypa ekki ókunnugum inn á heimilið.

