Fótbolti

Ragnar: Með nýju þjálfarateymi kom nýr drifkraftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Ragnar Sigurðsson verður væntanlega áfram í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem á morgun hefur leik í undankeppni EM 2020 í fótbolta. Ragnar er ánægður með þann hóp starfsmanna sem stýrir landsliðinu nú.

„Leikmannahópurinn er mjög góður núna og við erum hungraðir í að sýna að síðustu úrslit gefi ekki rétta mynd af gæðum liðsins. Við erum klárir í verkefnið,“ sagði Ragnar en það er langt um liðið síðan að Ísland vann síðast leik.

Ragnar hætti raunar í íslenska landsliðinu á HM í sumar en dró þá ákvörðun síðar til baka.

„Ég er mjög „mótiveraður“ núna. Við vorum búnir að vera með sama lið og sömu þjálfara í langan tíma. Þegar ég tók þessa ákvörðun var það út af smá þreytu. En svo komu nýir þjálfarar og nýtt starfslið. Það var allt nýtt og það var mikill drifkraftur fyrir mig.“

Hann er ánægður með Erik Hamren sem tók við starfi landsliðsþjálfara í haust. „Hann er með fullt af nýjum hlutum en samt höldum við í margt sem var gott. Það er nýr eldur í þessu og ég er mjög spenntur,“ sagði Ragnar sem er með varann á sér þegar talið berst að liði Andorra, andstæðingi Íslands á morgun.

„Ég veit ekki hversu gott þetta lið er. Við höfum sjálfir sannað það að staða á heimslista sýnir ekki alltaf hversu gott liðið er. Þetta verður mikil barátta og það er ekki öruggt að við munum vera með yfirburði. Við þurfum að mæta klárir í slaginn og sýna hvað við getum.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×