Fótbolti

Sterling brjálaður vegna tilkynningar um fyrirliðastöðuna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Southgate og Raheem Sterling á blaðamannafundinum í gær
Gareth Southgate og Raheem Sterling á blaðamannafundinum í gær vísir/getty
Raheem Sterling er bálreiður umboðsfyrirtæki sínu eftir að það sendi frá sér tilkynningu um að hann yrði fyrirliði enska landsliðsins í leiknum við Holland.

Colossal Sports Management sendi frá sér tilkynningu seint á þriðjudag þess efnis að hinn 24 ára Sterling yrði með fyrirliðabandið þegar England mætir Hollandi í seinni undanúrslitaleik Þjóðadeildar UEFA.

Sterling segist ekki vita hvað hafi staðið að baki tilkynningunni og er búinn að biðja Gareth Southgate landsliðsþjálfara afsökunar.

„Ég vaknaði í morgun bálreiður. Ég hef ekki rætt við Gareth um fyrirliðabandið og ekki neinn á umboðsskrifstofunni svo þetta var mjög sérstakt,“ sagði Sterling á blaðamannafundi í gær.

„Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég talaði við umboðsmanninn minn var að biðja Gareth afsökunar og sagði honum að ég vissi ekki hvaðan þetta hefði komið.“

Harry Kane er fyrirliði enska landsliðsins og Jordan Henderson varafyrirliði. Þeir voru hins vegar báðir í eldlínunni í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta laugardag svo Gareth Southgate gæti vel hvílt þá báða í leiknum við Holland í kvöld.

Gareth Southgate vildi ekki tjá sig um fyrirliðastöðuna á blaðamannafundinum þar sem hann vildi ekkert gefa upp um hvaða leikmenn spila leikinn. Það eina sem hann gat staðfest var að Sterling myndi spila.

Leikur Englands og Hollands hefst klukkan 18:45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×