Erlent

Mengunargjald tekur gildi í miðborg London

Kjartan Kjartansson skrifar
London glímir við mikla loftmengun af völdum umferðar eins og margar aðrar stórborgir.
London glímir við mikla loftmengun af völdum umferðar eins og margar aðrar stórborgir. Vísir/EPA
Byrjað var að rukka ökumenn eldri bifreiða sem menga meira en nýrri tegundir í miðborg London í dag. Markmið nýju reglnanna er að draga úr mengun en London hefur glímt við mikla loftmengun sem fer reglulega yfir heilsuverndarmörk eins og fleiri evrópskar borgir.

Gjaldið sem tekið er af ökumönnum bíla sem falla undir reglurnar er 12,50 pund, jafnvirði tæpra tvö þúsund íslenskra króna. Samgönguyfirvöld í London áætla að ökumenn um 40.000 bíla verði rukkaðir á dag, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í grófum dráttum þurfa eigendur bifhjóla sem eru framleidd fyrir 2007, bensínbíla framleiddir fyrir 2006 og dísilbíla framleiddir fyrir 2015 að greiða gjaldið. Þeir sem greiða ekki gjaldið eiga yfir höfði sér 160 punda sekt, jafnvirði um 25 þúsund króna.

Í fyrstu verður gjaldið aðeins tekið í kjarna miðborgarinnar. Það verður stækkað þannig að það nái út að hringvegi í kringum miðborgina í október árið 2021.

Vonir standa til að hægt verði að draga úr útblæstri mengandi efni frá vegasamgöngum um 45% með aðgerðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×