Fótbolti

Leikvangur á Spáni skírður eftir nýjum liðsfélaga Gunnhildar Yrsu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vero Boquete með fyrirliðaband spænska landsliðsins á síðasta HM.
Vero Boquete með fyrirliðaband spænska landsliðsins á síðasta HM. Getty/Minas Panagiotakis
Sumir knattspyrnumenn hafa í gegnum tíðina fengið leikvang eða stúkur skírðar eftir sér hjá „sínu“ félagi en aðeins löngu eftir að ferli þeirra lýkur. Spænska knattspyrnukonan Vero Boquete hefur allt aðra sögu að segja.

Vero Boquete er 31 árs gömul og enn að spila atvinnumannabolta. Hún gekk nýverið til liðs við Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og félaga í bandaríska félaginu Utah Royals.

Vero Boquete er að flestra mati fremsta knattspyrnukonan Spánar frá upphafi en engin hefur skorað fleiri mörk fyrir landslið Spánar.





Í nóvember síðastliðnum þá var Vero Boquete sýndur mikill heiður í heimabæ sínum Santiago de Compostela á norðvestur Spáni. Santiago de Compostela er höfuðstaður Galisíu á Norðvestur-Spáni.

Vero Boquete hefur unnið Meistaradeildina og titla í þremur löndum á viðburðarríkum ferli sínum þar sem hún hefur spilað út um allan heim. Áður en hún samdi við Utah Royals þá spilaði hún í Kína.

Vero Boquete fæddist aftur á móti í Santiago de Compostela 9. apríl 1987. Leikvangurinn í bænum hét áður Estadio Multiusos de San Lázaro en í nóvember fékk hann nafnið Estadio Vero Boquete de San Lázaro.

„Það er svo erfitt að segja hvernig mér líður því þetta er sögulegur og táknrænn leikvangur,“ sagði Vero Boquete í viðtali við Guardian en hún fór næstum því á hverri helgi á völlinn þegar hún var yngri.

„Borgin mín gat ekki sýnt mér meiri ást en með þessu. Þetta er mitt fólk og nágrannar mínir. Þetta snýst samt ekki bara um mitt nafn heldur um að það er konunafn á fótboltaleikvangi. Þetta er frábært,“ sagði Vero Boquete.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×