Það vita nú allir, sem vilja vita það, að það er gríðarlegur launamunur hjá bestu körlum og bestu konum í fótoboltaheiminum í dag. Það breytir þó ekki því að það er sláandi að sjá hversu munurinn er gríðarlega mikill þegar við erum komin inn á árið 2019.
Hér fyrir neðan má sjá þessa twitter færslu Sameinuðu þjóðanna, @UN, sem hefur vakið mikla athygli á bæði erlendum fréttamiðlum og samfélagsmiðlum.
1 male soccer player makes almost double as much as the combined salaries of all players in the top 7 women's soccer leagues.
During the #WomensWorldCup2019, join @UN_Women in demanding equal pay for #WomenInSport. https://t.co/5xnSaUqEO1pic.twitter.com/SMr23362hg
— United Nations (@UN) June 23, 2019
Laun fótboltakvenna eru eitthvað að hækka en laun bestu karlanna hafa á móti þotið upp á síðustu árum og voru þau samt há fyrir.
United Nations notar Lionel Messi sem fulltrúa knattspyrnukarlanna þó að fáir séu mikið að kvarta yfir háum launum hans. Messi hefur svo sannarlega unnið fyrir þeim ef við skoðum hvað aðrir mun lakari leikmenn eru að fá í laun.
Lionel Messi fær 84 milljónir dollara í laun og bónusgreiðslur á hverju ári eða rúma 10,4 milljarða íslenskra króna.
Það eru 1693 leikmenn sem spila í sjö bestu kvennadeildum heims. Þær fá allar samanlagt 42,6 milljónir dollara í árslaun eða aðeins helminginn af launum Messi. 42,6 milljónir dollara eru 5,3 milljarðar íslenskra króna.