Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi en lögreglumenn þar hafa haft nóg að gera um helgina. Lögregla var með virkt eftirlit um embættið og voru settar upp eftirlitsstöðvar víðsvegar um embættið þar sem kannað var með ástand og réttindi ökumanna. Mikil umferð hefur verið um svæðið og áætla lögreglumenn að ástand og réttindi um tvö þúsund ökumanna hafi verið kannað síðastliðinn sólarhring.
Frá því í gærmorgun hefur 21 ökumaður verið kærður fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og einn ökumaður fyrir ölvun við akstur. Þremur ökumönnum til viðbótar var gert að hætta akstri sökum áfengisáhrifa sem mældust undir sviptingarmörkum. Þá hefur einstaka ökumanni verið gert að hætta akstri þar sem endurnýjun ökuréttinda hefur ekki verið sinnt, að því er segir á Facebook-síðu lögreglunnar.
Þrjú minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu. Þriggja bifreiða árekstur varð á Suðurlandsvegi við Olís á Selfossi. Engin meiðsli urðu fólki í þessum óhöppum. Lögreglu hvetur ökumenn til að huga að bili milli ökutækja sem og að hafa óskipta athygli við aksturinn.
Aukið eftirlit verður á vegum úti í dag og mega ökumenn sem leggja af stað frá Landeyjarhöfn meðal annars búast við því að vera stöðvaðir svo kanna megi ástand þeirra og réttindi.