Casillas birti færslu á Twitter reikningi sínum í gær sem sjá má neðst í fréttinni en þar má sjá að hann hafi nýlokið æfingu. Við myndina skrifar Casillas: „Í 6 mánuði og þrjá daga voru þeir á hillunni.“
Í kjölfar hjartaáfallsins var talið ólíklegt að þessi 38 ára gamli markvörður myndi snúa aftur á knattspyrnuvöllinn en Casillas hefur sjálfur sagt að hann vilji hætta á sínum forsendum. Hann er skráður í leikmannahóp Porto í portúgölsku úrvalsdeildinni og gæti því snúið aftur í markið á þessari leiktíð.
Casillas er í guðatölu á Spáni og víðar og er einn af dáðustu sonum Real Madrid enda næstleikjahæsti leikmaður í sögu spænska stórveldisins með 725 leiki á árunum 1999-2015.
Hann er sömuleiðis næstleikjahæsti landsliðsmaður Spánar og varði mark landsliðsins á gullaldarárum þess frá 2008-2012 þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar í tvígang auk þess að verða Heimsmeistarar 2010.
6 meses y 3 días que estabais en la taquilla... pic.twitter.com/nDtjxfm1lq
— Iker Casillas (@IkerCasillas) November 4, 2019