Fótbolti

Berlusconi vill fá Zlatan í C-deildina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Silvio Berlusconi fær oftast það sem hann vill.
Silvio Berlusconi fær oftast það sem hann vill. vísir/getty

Um fátt er meira ritað og rætt á Ítalíu þessa dagana en hvar sænski markahrókurinn Zlatan Ibrahimovic mun spila næst en flest þykir benda til þess að hann ætli sér að snúa aftur í ítalska boltann þar sem hann réði ríkjum á hápunkti ferils síns með Juventus, Inter og AC Milan.

Hefur hann meðal annars verið orðaður við AC Milan þar sem hann er í miklum metum eftir að hafa orðið Ítalíumeistari með liðinu 2011. Á þeim tíma stjórnaði Silvio nokkur Berlusconi flestum málum bak við tjöldin hjá AC Milan samhliða því að vera forsætisráðherra Ítalíu og sinna fleiri háttsettum embættum.

Berlusconi hætti öllum afskiptum af AC Milan þegar hann tók þátt í að selja félagið til kínverskra fjárfesta árið 2017.

Þessi 83 ára gamli athafnamaður er þó ekki hættur öllum afskiptum af fótbolta þar sem hann á nú ítalska C-deildarliðið Monza. Hefur félaginu gengið allt í haginn síðan Berlusconi fór að stýra skútunni en liðið trónir á toppi C-deildarinnar og hefur aðeins tapað einum leik á yfirstandandi leiktíð.

Hefur Berlusconi látið hafa eftir sér að hann hyggist nú endurnýja kynnin við Zlatan.

„Ég vona að hann komi til Monza,“ er haft eftir Berlusconi í ítölskum fjölmiðlum en liðinu er stýrt af Christian Brocchi, fyrrum leikmanni AC Milan.


Tengdar fréttir

„Sjáumst á Ítalíu bráðlega“

Zlatan Ibrahimovic hefur gefið það sterklega til kynna að hann sé á leið til AC Milan og þar af leiðandi snúa aftur í ítalska boltann eftir átta ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×