Enski boltinn

Pochettino fór ekki út úr húsi í 10 daga eftir tapið gegn Liverpool

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pochettino fór niðurlútur frá úrslitaleiknum í Madrid
Pochettino fór niðurlútur frá úrslitaleiknum í Madrid vísir/getty
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, viðurkennir að dagarnir eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í lok síðasta tímabils hafi verið þeir erfiðustu á þjálfaraferlinum.

Tottenham tapaði 2-0 fyrir Liverpool á Wanda Metropolitano leikvangnum í Madrid í leik sem verður seint minnst sem einn af skemmtilegri úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar.

„Þetta var erfitt. Við höfðum þrjár vikur til að undirbúa okkur fyrir úrslitaleikinn svo það voru mikil vonbrigði að tapa honum eins og við gerðum. Mér leið mjög illa. Ég met þetta til jafns við sumarið 2002 þegar við gerðum jafntefli við Svíþjóð og töpuðum fyrir Englandi í riðlakeppni HM. Þetta eru verstu augnablikin á mínum ferli,“ segir Argentínumaðurinn sem tók sér góðan tíma til að jafna sig.

„Ég tók lest frá Madrid til Barcelona daginn eftir úrslitaleikinn. Ég var heima hjá mér í 10 daga og vildi ekki fara út úr húsi. Það er erfitt þegar þú kemst svo nálægt stórum sigri.“

„Mér fannst við vera betri en Liverpool. Þetta var ekki frábær úrslitaleikur en það voru smáatriðin sem skildu á milli,“ segir Pochettino.

Hann kveðst þó vera búinn að jafna sig í dag enda er hann á fullu að undirbúa lið sitt fyrir keppni í ensku úrvalsdeildinni sem hefst eftir nokkra daga. Tottenham mætir nýliðum Aston Villa í 1.umferðinni laugardaginn 10.ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×