Greint er frá nafni mannsins í belgískum fjölmiðlum og fjallað um leit íslenskrar lögreglu og björgunarsveita í Þingvallavatni. Í frétt HLN segir að Debecker sé tveggja barna faðir frá Leuven, menntaður verkfræðingur og mikill heimshornaflakkari. Hann hafi komið víða við á ferðalögum sínum um heiminn og m.a. tjaldað við jökulrætur í Alaska, skíðað í Ölpunum og kafað í Víetnam. Þá hafi hann einnig verið búsettur í Noregi á tímabili.
Þar kemur auk þess fram fjölskylda Debeckers hafi verið látin vita af leitinni. Málið hafi fengið mjög á fjölskylduna, sem vildi ekki tjá sig um málið við miðilinn.
Leit haldið áfram á morgun
Lögregla á Suðurlandi gengur út frá því að Debecker hafi fallið útbyrðis er hann sigldi á kajak út á Þingvallavatn um helgina en umfangsmikil leit að honum hófst á laugardag. Lögregla hefur jafnframt verið í sambandi við aðstandendur hans, sem hafa ekkert heyrt í honum síðustu daga. Þá telur lögregla að „yfirgnæfandi líkur“ séu á því að hann sé í vatninu.Strekkingsvindur hefur verið á svæðinu síðan um helgina og hafa aðstæður til leitar verið slæmar. Hlé var gert á leitinni um hádegisbil í gær. Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi nú í morgun að leit verði ekki haldið áfram fyrr en seinnipartinn á morgun. Leitað verður á vatni og gengið í fjörur.
Þá hefur verið kannaður möguleiki á því að senda kafara frá sérsveit Ríkislögreglustjóra til að leita í vatninu. Sveinn segir að þeir bíði eftir hagstæðum veðurskilyrðum og verði vonandi sendir til leitar seinna í vikunni.