Kamerúnar urðu æfir eftir að mark Ellenar White í uppbótartíma fyrri hálfleiks var dæmt gilt. Upphaflega var markið dæmt af vegna rangstöðu en eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi var dómnum breytt enda var White greinilega réttstæð.
Leikmönnum Kamerún fannst þeir hins vegar beittir miklu óréttlæti. Þeir söfnuðust saman á miðjum vellinum og virtust neita að halda leik áfram. Kamerún fékkst þó loks til að taka miðjuna og leikurinn gat haldið áfram.
Skömmu síðar var flautað til hálfleiks. Samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla voru leikmenn Kamerún í miklu uppnámi í hálfleiknum, sumir grétu og sökuðu FIFA um kynþáttafordóma.

Undir lok leiksins átti England að fá vítaspyrnu en dómarinn, Liang Qin frá Kína, dæmdi ekkert, líklega af ótta við aðra uppákomu.
Skömmu síðar braut Alexandra Takounda Engolo illa á fyrirliða Englands, Steph Houghton, en fékk bara gult spjald. Kamerúnar voru heppnir að klára leikinn með ellefu leikmenn en í fyrri hálfleik sló Yvonne Leuko Nikitu Parris í andlitið og svo virtist sem hrækt hafi verið á Toni Duggan.
Eftir leikinn sagðist Phil Neville, þjálfari Englendinga, ekki hafa neina samúð með Kamerúnum og fordæmdi framkomu þeirra.
„Þetta var ekki fótbolti. Það var leiðinlegt að sjá þetta. Ég vorkenni þeim ekkert en held að dómarinn hafi gert það. Við hefðum átt að fá víti og leikmaður þeirra rautt spjald,“ sagði Neville. Hans lið mætir Noregi í 8-liða úrslitunum.