Innlent

Ómengað ástarlíf í úteyjum

Fegnitíminn er hafinn af fullum krafti í úteyjum Vestmannaeyja, en þar ganga kindur úti í fimm eyjum. Hrútarnir eru hinsvegar aldir vel í Heimaey, eða fengnir af fasta landinu til að gagnast kindunum um þetta leiti.

Þannig voru þrír hrútar fluttir á trillu út að Bjarnarey á sunnudag, síðan hífðir upp þverhnípt 120 metra hátt bjarg og sleppt til kindanna, sem fylgdust spenntar með aðförunum.

Og nú, þegar aðdragandi sauðburðar hefur verið kveiktur, hefst bið í rúma 140 daga eftir að fundur hrútanna og ánna í úteyjunum ber ávöxt í byrjun maí. Þá fara fjárbændurnir aftur út í eyjar og sitja yfir sauðburðinum.

Samtals ganga nokkur hundruð kindur úti í Eyjunum allan ársins hring og þykir kjötið af þeim mjög gott. Sem kunnugt er færist það mjög í vöxt á fasta landinu að kindur séu sæddar og komist því aldrei í kynni við hrúta, en í úteyjunum er lífsins gangur nákvæmlega eins og hann var, allt frá því að fyrsta sauðkindin sté hér á land.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×