Perla Ruth Albertsdóttir, landsliðskona í handbolta, leikur ekki meira með Fram á tímabilinu þar sem hún er barnshafandi. Perla greindi frá tíðindunum á samfélagsmiðlum í gær.
Enn kvarnast því úr liði deildar- og bikarmeistaranna en í síðustu viku samdi markvörðurinn Hafdís Renötudóttir við sænska liðið Lugi. Þá er Karen Knútsdóttir nýbúin að eignast barn og Þórey Rósa Stefánsdóttir á sömuleiðis von á barni.
Perla gekk í raðir Fram frá Selfossi sumarið 2019. Á síðasta tímabili skoraði hún 55 mörk í átján leikjum í Olís-deildinni og var í stóru hlutverki í vörn Fram.
Perla, sem er 24 ára, hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin misseri.
Fram er með fjögur stig eftir þrjá leiki í Olís-deildinni. Næsti leikur liðsins á að vera gegn FH 24. október.