Fótbolti

Liðs­fé­lagi Hjartar skrapp á klósettið á meðan dómararnir kíktu á VAR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jesper Lindsröm skrapp á klósettið og náði aftur til baka áður en dómararnir höfðu náð að skoða VAR.
Jesper Lindsröm skrapp á klósettið og náði aftur til baka áður en dómararnir höfðu náð að skoða VAR. Lars Ronbog/Getty

Eftir að VARsjáin var tekinn í notkun í fótboltanum þá eru fleiri pásur í leiknum og leikmenn nýta sér þær til hins ítrasta. Það var að minnsta kosti raunin hjá Íslendingaliðinu Bröndby í danska boltanum í gær.

Bröndby er í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Þeir verða í einu af tveimur efstu sætunum yfir jól og áramót en annað Íslendingalið, Midtjylland, getur jafnað þá að stigum síðar í kvöld er liðið mætir Nordsjælland.

Það var Íslendingaslagur í danska boltanum í gær er Bröndby vann 2-1 sigur á Horsens á útivelli. Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark Horsens en þeir Ágúst Eðvald Hlynsson [Horsens] og Hjörtur Hermannsson [Bröndby] komu inn á sem varamenn.

Ein af sögum leiksins var þó klósettferð Jesper Lindström, leikmanns Bröndby. Simon Hedlund, framherji Bröndby, féll í vítateig Horsens í fyrri hálfleik og dómarnir ákváðu að skoða það í VAR. Það tók sinn tíma og Lindström ákvað að nýta sér tækifærið. Hann skellti sér á klósettið.

„Ég komst ekki nægilega fljótt á klósettið svo þetta hentaði fullkomlega að það kom þessi langa pása. Þetta voru erfiðar fyrstu tuttugu mínútur en eftir þetta var ég mikið léttari. Ég hljóp svo frá einum leikmanni Horsens og skoraði,“ sagði Jesper léttur. Hann hefur verið einn besti leikmaður Superligunnar í ár.

„En í einlægni þá er þetta mjög pirrandi að þetta skuli taka svona langan tíma. Maður stendur og verður kalt og pirraður. Ég get ímyndað mér að þetta sé einnig pirrandi fyrir stuðningsmennina því þetta tekur spennuna úr leiknum. Þrátt fyrir að hafa þurft að fara á klósettið þá missti ég ekki af einni sekúndu í leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×