Enski boltinn

City í áfalli yfir að Liverpool vilji þá úr Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool er með 25 stiga forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Liverpool er með 25 stiga forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty

Manchester City er í áfalli yfir því að Liverpool vilji ekki að félagið fái að keppa í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Í síðasta mánuði var City dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni vegna brota á reglum Knattspyrnusambands Evrópu á reglum um fjárhagslega háttvísi. City áfrýjaði dóminum til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS, fljótlega eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Í gær bárust fréttir af því að átta af tíu efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar vilji ekki að City fái þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili og sendu beiðni til CAS þess efnis. Einu félögin sem voru mótfallin því að City yrði sett í bann voru Sheffield United og auðvitað City.

Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla er City afar undrandi og í áfalli yfir því að Liverpool vilji ekki að Englandsmeistararnir taki þátt í Meistaradeildinni á næsta tímabili. 

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku deildarinnar og City finnst skrítið að toppliðið sé í hópi þeirra sem vilja þá úr Meistaradeildinni. Það sé hins vegar skiljanlegt að liðin fyrir neðan City setji sig upp á móti því að Manchester-liðið keppi í Meistaradeildinni.

Talsverðar líkur eru taldar á því að áfrýjun City verði ekki tekin fyrir byrjun næsta tímabils í Meistaradeildinni. Líkt og aðrar keppnir hefur Meistaradeildin verið sett á ís vegna kórónuveirufaraldursins. 

Félögin sem vilja fá City úr Meistaradeildinni ku vera búin að fá sig fullsadda af því að félagið komist upp með að fara á svig við reglur UEFA um fjárhagslega háttvísi án þess að fá refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×