Erlent

Malala snéri heim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Malala Yousafzai sést hér við drengjaskólann Guli Bagh í dag.
Malala Yousafzai sést hér við drengjaskólann Guli Bagh í dag. Vísir/AFP
Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai heimsótti heimabæ sinn í Pakistan í fyrsta sinn síðan hún varð fyrir árás talíbana árið 2012. Talið var óvíst hvort Malala myndi snúa aftur í Swat-dalinn, þar sem hún ólst upp, á grundvelli öryggisráðstafana. BBC greinir frá.

Malala, sem býr nú í Bretlandi, var nýstigin upp í skólabíl í lok skóladags árið 2012 þegar talíbanar réðust inn í rútuna og skutu hana í höfuðið. Malala hafði verið áberandi í baráttu sinni fyrir aukinni menntun stúlkna í Pakistan en ráðist var á hana vegna þess.

Á fimmtudag var tilkynnt um að Malala hefði snúið aftur til Pakistan í fyrsta sinn síðan árásin var gerð. Í dag var henni flogið með þyrlu á heimaslóðirnar, bæinn Mingora í Swat-dalnum.

Síðast sást til Malölu í drengjaskóla í útjaðri bæjarins en hún mun halda erindi í skólanum síðar í dag. Þá er búist við því að hún ferðist um Pakistan í alls fjóra daga. Ströng öryggisgæsla fylgir Malölu hvert sem hún fer og þá eru embættismenn frá Malölu-sjóðnum, styrktarsamtökum Yousafzai, einnig með í för.

Eftir skotárásina 2012 var Malala flutt til Birmingham í Englandi til aðhlynningar þar sem hún og fjölskylda hennar settust að. Þaðan hélt hún áfram baráttu sinni fyrir réttindum stúlkna til skólagöngu og hlaut hún friðarverðlaun Nóbels árið 2014, þá sautján ára gömul, yngst allra nóbelsverðlaunahafa.


Tengdar fréttir

Malala fær inngöngu í Oxford

Malala Yousafzai, yngsti einstaklingurinn til að hreppa friðarverðlaun Nóbels, hefur fengið inngöngu í Oxford háskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×