Risarnir í tennisheiminum, Novak Djokovic og Rafael Nadal, mættust í úrslitum á Sony-mótinu í gær. Spánverjinn sá ekki til sólar gegn Serbanum í úrslitum.
Djokovic var í gríðarlegu stuði og vann 6-3 og 6-3. Þetta var í fjórða sinn sem Djokovic vinnur þetta mót.
"Ég reyndi allt. Mitt besta var ekki nóg að þessu sinni. Djokovic var bara betri en ég," sagði Nadal eftir leikinn en hann var að tapa í þriðja sinn fyrir Serbanum í úrslitum þessa móts.
"Ég spilaði frábærlega. Ég er í hörkuformi og ætla mér stóra hluti á árinu," sagði Djokovic.
Hann stefnir að því að vinna öll risamót ársins. Þar á meðal opna franska mótið þar sem Nadal hefur verið ósigrandi síðustu ár.

