Fótbolti

Fyrirliðabandið sem Ronaldo grýtti frá sér á uppboði til að hjálpa veiku barni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo kastar fyrirliðabandinu sér frá í leik Serbíu og Portúgals. Það gæti nú nýst til að hjálpa langveiku serbnesku barni.
Cristiano Ronaldo kastar fyrirliðabandinu sér frá í leik Serbíu og Portúgals. Það gæti nú nýst til að hjálpa langveiku serbnesku barni. epa/MIGUEL A. LOPES

Fyrirliðabandið sem Cristiano Ronaldo grýtti á jörðina í leik Serbíu og Portúgals hefur verið sett á uppboð. Upphæðina sem fæst fyrir fyrirliðabandið á að nota til að hjálpa veiku barni.

Ronaldo brást afar illa við þegar mark sem hann skoraði í uppbótartíma í leik Serbíu og Portúgals í undankeppni HM á laugardaginn var ekki dæmt gilt. Boltinn virtist klárlega hafa farið inn fyrir marklínuna en enginn í dómaratríóinu sá það. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Ronaldo mótmælti af miklum móð og kastaði fyrirliðabandi sínu meðal annars á jörðina. Juventus-stjarnan fékk gult spjald fyrir mótmælin og gæti fengið frekari refsingu fyrir framkomu sína frá FIFA.

Öryggisvörður á Rajko Mitic leikvanginum í Belgrad kippti fyrirliðabandinu með sér. Og það hefur nú verið boðið upp á netinu. Nýta á upphæðina til að hjálpa serbnesku barni sem glímir við erfið veikindi.

Dómari leiksins á laugardaginn, Hollendingurinn Danny Makkelie, baðst afsökunar á að hafa ekki dæmt markið gilt.

„Samkvæmt reglum FIFA þá er það eina sem ég get sagt um þetta mál er að ég bað landsliðsþjálfarann, herra Fernando Santos, og allt portúgalska landsliðið afsökunar á því sem gerðist,“ sagði Danny Makkelie við portúgalska blaðið A Bola.

Portúgal vann 1-3 sigur á Lúxemborg í undankeppni HM í gær. Ronaldo skoraði eitt marka Evrópumeistaranna. Á meðan sigraði Serbía Aserbaídsjan, 1-2. Aleksandar Mitrovic skoraði bæði mörk Serba.

Portúgal og Serbía eru jöfn að stigum á toppi A-riðils undankeppni HM 2022. Liðin eru með sjö stig, fjórum stigum á undan Lúxemborg sem er í 3. sæti riðilsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×