Enski boltinn

Hafa aldrei tapað þegar Jesus skorar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Jesus fagnar marki sínu í gær fyrir Arsenal á móti Brentford í ensku úrvalsdeildinni.
Gabriel Jesus fagnar marki sínu í gær fyrir Arsenal á móti Brentford í ensku úrvalsdeildinni. Getty/ Mike Hewitt

Stuðningsmenn Arsenal ættu að fagna því að Gabriel Jesus sé búinn að grafa upp skotskóna sína því það boðar svo sannarlega gott fyrir hans lið.

Jesus skoraði eitt marka Arsenal í 3-1 endurkomusigri á Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann jafnaði þá metin í 1-1.

Þetta var sjötta mark Gabriel Jesus í síðustu fjórum leikjum í öllum keppnum þar af þriðja markið í síðustu þremur deildarleikjum.

Jesus hefur nú skorað í 62 úrvalsdeildarleikjum með Manchester City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og hann hefur aldrei verið í tapliði í deildarleik þegar hann kemst á blað. 57 leikjanna hafa unnist en fimm þeirra hafa endaði með jafntefli.

Af þessum 62 leikjum hafa fimmtán þeirra komið í búningi Arsenal. Þrettán hafa unnist og tveir endað með jafntefli.

Síðustu vikur hafa verið frábærar hjá Jesus. Hann skoraði þrennu í deildabikarleik á móti Crystal Palace, tvennu í deildarsigri á Palace og svo markið á móti Brentford í gær.

Fyrir þessi þrjú mörk í síðustu þremur deildarleikjum hafði Gabriel Jesus ekki skorað í fyrstu þrettán deildarleikjum Arsenal á leiktíðinni og alls leikið 23 deildarleiki í röð í búningi Arsenal án þess að skora.

Nú er öldin önnur og nýja árið byrjar jafnvel og það gamla endaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×