Þjóðverjinn Timo Werner fékk algjört dauðafæri til að koma Chelsea yfir snemma leiks en Thibaut Courtois náði að verja frá honum.
Á 14. mínútu náði hins vegar Christian Pulisic að skora. Antonio Rüdiger sendi langa sendingu yfir vörn Real á Pulisic sem tók sér góðan tíma áður en hann skoraði mikilvægt útivallarmark.
Karim Benzema var nálægt því að jafna metin þegar fallegt skot hans fór í stöngina og framhjá. Hann skoraði hins vegar skömmu síðar, á 29. mínútu, þegar hann sýndi viðbrögð kattarins með því að leggja boltann fyrir sig með höfðinu í teignum og þruma honum í netið.
Liðin mætast að nýju í Lundúnum næsta miðvikudagskvöld.