Talið er að drengurinn hafi verið myrtur með öxi, sem hald var lagt á í skólanum í gær. Sextán ára samnemandi hans var handtekinn stuttu eftir að líkið fannst en ekki er talið að drengirnir hafi þekkst. Talið er að meintur morðingi hafi keypt öxina á internetinu.
Svo alvarlegt ofbeldi er óalgengt í skólum í Singapúr, en þar er glæpatíðnin meðal lægstu í heimi. Málið hefur vakið mikla athygli í landinu.
Eftir að lík drengsins fannst var skólanum, River Valley High School, lokað tímabundið og öllum nemendum haldið inni í kennslustofum. Breska ríkisútvarpið segir að nemendurngir, sem hafi verið lokaðir inni, hafi sent foreldrum og vinum sínum skilaboð um að manneskja vopnuð öxi væri inni í skólanum. Mikil hræðsla hafi gripið um sig meðal nemenda. Þeim var hleypt heim eftir nokkra bið en samnemandi þeirra handtekinn.
Hinn meinti morðingi var leiddur fyrir dómara í Singapúr í morgun en hann gæti átt dauðrefsingu yfir höfði sér. Þó er það talið ólíklegt, þar sem hann hefur ekki náð átján ára aldri, og er talið að hann muni að mestu sæta ævilöngum fangelsisdómi.
Saksóknarar óskuðu eftir því við dómara að drengurinn yrði sendur strax í sálfræðilegt mat. Drengurinn er sagður hafa verið inni á geðdeild áður eftir að hann reyndi að taka eigið líf árið 2019. Hvorki er hægt að nafngreina myrta drenginn né þann sem talið er að hafi myrt hann þar sem hvorugur hefur náð átján ára aldri.