Fyrir leikinn voru gulklæddir Dortmunt taldir sigurstranglegri en gestirnir en það mátti ekki miklu muna þar sem lítið skildi liðin að á síðustu leiktíð. Þá lenti Dortmund í þriðja sæti Bundesligunnar en Frankfurt lokaði tímabilinu í fimmta sæti þremur stigum á eftir.
Það tók Dortmund 23 mínútur að komast yfir. Þar var að verki hin óviðjafnanlegi Marco Reus eftir sendingu frá Haaland. Frankfurt jafnaði þó strax í kjölfarið með sjálfsmarki Felix Passlack.
Heimamenn áttu þó eftir að skora tvö mörk áður en hálfleiksflautan gall. Fyrst var það Thorgan Hazard sem skoraði eftir undirbúning Haaland á 32. mínútu en Haaland skoraði svo sjálfur tveimur mínútum síðar. 3-1 í hálfleik.
Pretty good, pretty pretty good pic.twitter.com/B8TdtTmanE
— Borussia Dortmund (@BlackYellow) August 14, 2021
Dortmund hélt svo áfram uppteknum hætti í síðari hálfleik en Giovanni Reyna skoraði á 58. mínútu áður en fimmta markið kom frá Haaland á 70. mínútu eftir undirbúning Marco Reus sem þakkaði þar með kærlega fyrir stoðsendinguna í fyrsta markinu.
Jens Petter Hauge skoraði svo sárabótarmark fyrir gestina á 86. mínútu. 5-2 og Haaland byrjar þetta tímabil nákvæmlega eins og hann endaði það síðasta. Tvö mörk og tvær stoðsendingar uppskeran í dag.
Önnur úrslit úr þýsku Bundesligunni í dag voru þessi:
Armenia Bielefeld 0-0 Freiburg
Augsburg 0-4 Hoffenheim (Alfreð Finnbogason meiddur)
Union Berlin 1-1 Bayer Leverkusen
VfB Stuttgart 5-1 Greuther Fuerth
Wolfsburg 1-0 Bochum