Fótbolti

Jón Guðni skoraði tvö en Hammarby er úr leik eftir vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Guðni Fjóluson var á skotskónum í kvöld, en það dugði þó ekki til.
Jón Guðni Fjóluson var á skotskónum í kvöld, en það dugði þó ekki til. Vísir/Vilhelm

Jón Guðni Fjóluson og félagar hans í sænska liðinu Hammarby tóku á móti svissneska liðinu Basel í seinni leik liðanna um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Eftir 3-1 tap í fyrri leiknum tryggði Jón Guðni Hammarby framlengingu með tveimur mörkum, en liðið tapaði 4-3 í vítaspyrnukeppni.

Sænska liðið þurfti að vinna upp tveggja marka forskot Svisslendingana frá fyrri leiknum og Jón Guðni kom Svíunum yfir eftir 48 mínútna leik.

Hann var svo aftur á ferðinni rétt um fimm mínútum síðar þegar að hann skoraði annað mark sitt, og annað mark Hammarby, eftir stoðsendingu frá Mohanad Jeahze.

Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. Akinkunmi Amoo kom Hammarby í 3-0 eftir rúmlega hundrað mínútna leik, en Arthur Cabral minnkaði muninn átta mínútum síðar. 

Lokatölur 3-1 eftir framlengingu, eins og í fyrri leiknum, og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Svíarnir klikkuðu á fyrstu tveim spyrnum sínum og voru því alltaf skrefi á eftir andstæðingum sínum. Andy Pelmard klikkaði á þriðju spyrnu Svisslendingana, en það reyndist eina spyrnan sem liðið klikkaði á.

Basel fer því áfram í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar eftir 4-3 sigur í vítaspyrnukeppni, en Jón Guðni og félagar sitja eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×