Fótbolti

„Ég er bara ótrúlega stoltur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Birkir Bjarnason í hundraðasta landsleik sínum fyrir Ísland.
Birkir Bjarnason í hundraðasta landsleik sínum fyrir Ísland. Vísir/Hulda Margrét

Birkir Bjarnason spilaði sinn hundraðasta landsleik fyrir Ísland er liðið gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu í undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í dag. Hann var sáttari við áfangann en spilamennsku íslenska liðsins.

Íslenska liðið spilaði ekki vel framan af leik. Norður-Makedónía komst yfir eftir hornspynu snemma leiks og tvöfölduðu forskotið snemma í síðari hálfleik. Ísland hrökk í gang síðasta stundarfjórðunginn þar sem mörk Brynjars Inga Bjarnasonar og Andra Lucasar Guðjohnsen skiluðu stigi.

„Við vorum alls ekki sáttir í fyrri hálfleik. Við töluðum um það í hálfleik að þetta væri ekki nægilega gott, við bara byrjuðum þennan leik hrikalega illa og ákváðum að við ætluðum að koma út og sýna okkar rétta andlit. Mér fannst við gera það og við vorum örstutt frá því að taka öll þrjú [stigin].“ segir Birkir um leikinn. Aðspurður um hvort það hafi verið andleysi í liðinu segir hann:

„Við tengdum ekki nægilega vel saman og þeir náðu að troða boltanum á milli okkar og við vorum dálítið hangandi eftir, mörg hlaup inn á milli og til baka, en mér fannst við gera vel að þétta í seinni hálfleik og við náðum að halda aðeins í boltann og sækja vel.“ segir Birkir.

Klippa: Birkir Bjarna eftir N-Makedóníu

Hann segir jafnframt svekkjandi að hafa ekki náð að vinna leikinn þar sem Ísland fékk fínar sóknarstöður eftir jöfnunarmark Andra Lucasar á 84. mínútu.

„Við vorum oft mjög nálægt því og það er bara algjör synd að við náðum ekki aðeins að halda kúlinu á síðustu sendingunni og klára þetta.“

Birkir var að leika sinn 100. landsleik í dag, rétt eins og nafni hans Birkir Már Sævarsson. Fyrir leik dagsins hafði aðeins Rúnar Kristinsson náð þeim áfanga en Birkir segir það mikinn heiður.

„Ég er bara ótrúlega stoltur. Það er gaman að þessu. Það er enn alltaf gaman að koma hérna og það er besti tíminn fyrir mig að koma í landsliðið og mæta strákunum og spila með þeim.“


Tengdar fréttir

„Þetta var íslenskur karakter, eitthvað sem við höfum alltaf haft“

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, ræddi við RÚV að loknu 2-2 jafntefli Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni HM sem fram fer í Katar um jólin 2022. Hann tekur á sig slaka byrjun Íslands og hrósaði ungu strákunum sem komu inn af bekknum og breyttu leiknum.

Einkunnir Íslands: Brynjar Ingi stóð upp úr

Íslenska karlalandsliðið gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu í J-riðli undankeppni HM 2022 í kvöld. Brynjar Ingi Bjarnason stóð upp úr í íslenska liðinu að mati Vísis.

Nafnarnir spiluðu sinn hundraðasta landsleik

Nafnarnir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson spiluðu báðir sinn 100. landsleik fyrir hönd íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í 2-2 jafnteflinu við Norður-Makedóníu undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×