Óskar Hrafn Þorvaldsson var ekki mjög stóryrtur í samtali sínu við fréttamann. Aðspurður hvernig honum litist á leikinn og hvort það mætti kalla þetta úrslitaleik sagði Óskar:
„Við erum búnir að spila marga úrslitaleiki á undanförnum vikum og þetta er bara einn af þeim en stór er hann og skemmtilegur.“
Valsmenn hafa ekki verið sannfærandi í síðustu leikjum en Óskar var ekki á því að það skipti miklu.
„Úrslitin hafa ekki verið að falla með þeim en við vitum að Valur er með mjög öflugt og reynslumikið lið. Eru með mikil einstaklingsgæði. Frábæran og reyndan þjálfara og eru með lið sem við tökum mjög alvarlega.“
Það getur verið erfitt að næla sér í sinn fyrsta titil og róðurinn gæti þyngst í lokin. Óskar segist lítið geta sagt um það.
„Ég verð bara að bera fyrir mig þekkingarleysi á stöðunni ég hef ekki verið nálægt titli og lít ekki svo á að við séum nálægt titli. Það er leikur á morgun við Val sem við viljum vinna. Við höfum ekkert efni á að hugsa lengra en það.“