Fótbolti

Þjóðverjar geta tryggt sér sigur í okkar riðli og sæti á HM með smá hjálp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjóðverjar fagna marki á móti Íslandi á Laugardalsvellinum í síðasta mánuði.
Þjóðverjar fagna marki á móti Íslandi á Laugardalsvellinum í síðasta mánuði. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið er ekki með í baráttunni um sæti á HM enda aðeins með fimm stig í fimmta sæti eftir sjö leiki en Þýskaland getur aftur á móti tryggt sig inn á HM í Katar í kvöld.

Þjóðverjar eru átján stig á toppi íslenska riðilsins og hafa sex stiga forskot á næstu lið sem eru Norður Makedónía og Armenía.

Þjóðverjar heimsækja Norður Makedóna í kvöld en á sama tíma heimsækja Armenar Rúmena í Búkarest.

Vinni Þjóðverjar sinn leik á sama tíma og Armenar vinna ekki í Rúmeníu þá væri sæti á heimsmeistaramótinu tryggt hjá þýska liðinu.

Þjóðverjar væru þá komnir með 21 stig eða átta stigum meira en næstu lið í riðlinum þegar aðeins sex stig væru eftir í pottinum.

Þjóðverjar gætu þá hvílt sína bestu leikmenn í tveimur síðustu leikjunum sem fara fram í nóvember en þar fá þeir þýsku Liechtenstein í heimsókn og heimsækja Armeníu.

Aðeins ein þjóð er komin með farseðilinn á HM fyrir leiki kvöldsins og það eru gestgjafarnir í landsliði Katar.

Belgar komast líka á HM í kvöld án þess að spila ef Wales nær ekki að vinna Eistland á útivelli.

Danir geta líka tryggt sér sæti á HM annað kvöld með sigri á Austurríki í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×