Armböndin keypti nafnlaus maður, sem bauð í armböndin í gegn um síma.
Marie Antoinette sendi armböndin úr landi áður en hún var handtekin og tekin af lífi í frönsku byltingunni. Þeim var smyglað úr landi og voru geymd af fjölskyldu hennar í meira en tvær aldir.
Þetta er fyrsta skiptið sem armböndin, sem eru úr 112 demöntum, hafa verið boðin upp til sölu og seldust þau fyrir tvöfalt hærri upphæð en búist var við.
„Armböndin minna okkur á mikilvægt tímabil í franskri sögu, á glamúr, dýrð og drama,“ sagði Francois Curiel, forstöðumaður uppboðshússins Christie's í Evrópu.
Marie Antoinette fæddist í Austurríki árið 1755 og var send til Frakklands fjórtán ára gömul til að giftast Loðvík XVI verðandi konungi. Hún var tekin af lífi í fallöxi árið 1793, nokkrum mánuðum eftir að Loðvík var tekinn af lífi. Marie var fremur óvinsæl meðal fransks almúga, sem taldi hana eyðslusama og hafa slæm áhrif á konunginn.
Á meðan hún beið aftöku sinnar í fangelsi sendi Marie bréf til dóttur sinnar um að hún hefði sent kistu fulla af skartgripum sem þyrfti að gæta.
Marie Therese, eftirlifandi dóttir hennar, tók á móti skartgripunum þegar hún kom sjálf til Austurríkis, samkvæmt upplýsingum frá uppboðshúsinu.