Fótbolti

Klæmint Ol­sen gerði það sem engum hafði tekist í undan­keppni HM til þessa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danmörk mætti Færeyjum á Parken í gær.
Danmörk mætti Færeyjum á Parken í gær. Jan Christensen/Getty Images

Þó Danmörk hafi unnið leikinn sannfærandi 3-1 þá urðu Færeyingar í gær fyrsta liðið til að koma knettinum netið hjá Kasper Schmeichel í undankeppni HM 2022.

Gengi danska landsliðsins undanfarnar vikur og mánuði hefur verið hreint út sagt ótrúlegt. Liðið er með fullt hús stiga þegar ein umferð er eftir af undankeppni HM 2022 í knattspyrnu sem fram fer í Katar.

Ekki nóg með það heldur hafði liðið ekki fengið á sig mark í undankeppninni þangað til liðið tók á móti Færeyingum á Parken í Kaupmannahöfn í gærkvöld.

Danir skoruðu tiltölulega snemma leiks og gerðu í raun út um leikinn þegar rúm klukkustund var liðin. Staðan 2-0, sigurinn í höfn og það stefndi í níunda leikinn í röð án þess að liðið fengi á sig mark.

Það er þangað til varamaðurinn Klæmint Olsen, leikmaður NSÍ Runavík, minnkaði muninn á 89. mínútu leiksins. Í örskamma stund létu Færeyingar sig dreyma um jöfnunarmark en Joakim Mæhle eyðilagði þá drauma og Danir unnu 3-1 sigur.

Danir hafa nú þegar tryggt sér sæti á HM í Katar en þeir eru með 27 stig á toppi F-riðils. Liðið hefur skorað 30 mörk og aðeins fengið á sig eitt. Danmörk sækir Skotland heim í lokaleik riðlakeppninnar en Skotar hafa nú þegar tryggt sér annað sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×