Erlent

Hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra loks heimil í Sviss næsta sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill meirihluti svissnesku þjóðarinnar greiddi atkvæði með því að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra í haust.
Mikill meirihluti svissnesku þjóðarinnar greiddi atkvæði með því að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra í haust. AP

Stjórnvöld í Sviss tilkynntu í morgun að hjónabönd samkynhneigðra verði heimil í landinu frá 1. júlí á næsta ári.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu í september síðastliðinn þar sem 64,1 prósent kjósenda greiddu atkvæði með því að heimila hjónabönd samkynhneigðra.

Til þessa hafa tveir einstaklingar af sama kyni einungis fengið að vera í svokallaðri „skráðri samvist“, en slík skráning hefur ekki veitt fólki sömu réttindi og þeir sem skráðir eru í hjónaband.

Samhliða lagabreytingunni verður lesbískum pörum í landinu heimilt að eignast börn með tæknisæðingu, en slíkt hefur til þessa verið óheimilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×