Áhöfn skips strandgæslu Kína reyndi nýverið að koma í veg fyrir að Filippseyingar kæmu birgðum til þeirra hermanna sem halda til á skipinu og krafðist Kína þess í kjölfarið að skipið yrði fjarlægt.
Eftir að birgðaskip þurftu frá að hverfa í síðustu viku voru fleiri send og tókst þeim að koma birgðum til áhafnar skipsins strandaða, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Rifið Second Thomas Shoal sem skipið BRP Sierra Madre er strandað á er innan tvö hundruð mílna landhelgi Filippseyja. Því var vísvitandi siglt í strand árið 1999 og var markmiðið að ítreka tilkall Filippseyja til Spratly-eyja.
Skipið var smíðað í Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni og var hannað til að flytja skriðdreka á átakasvæði.
Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og þar á meðal hafsvæðis ríkja eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Filippseyjar kærðu Kína fyrir Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.
Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.
Reuters fréttaveitan hefur eftir Delfin Lorenzana, varnarmálaráðherra Filippseyja, að kröfur Kínverja séu innihaldslausar. Það séu Kínverjar sem séu þar sem þeir eigi ekki að vera. Samkvæmt alþjóðalögum, sem Kínverjar hafa skrifað undir, tilheyri rifið Filippseyjum.