Erlent

Þrír dauða­dæmdir fangar teknir af lífi í Japan

Atli Ísleifsson skrifar
Þrátt fyrir gagnrýni ýmissa mannréttindasamtaka njóta dauðarefsingar enn stuðnings meðal japansks almennings.
Þrátt fyrir gagnrýni ýmissa mannréttindasamtaka njóta dauðarefsingar enn stuðnings meðal japansks almennings. AP

Þrír dauðadæmdir fangar hafa verið teknir af lífi í Japan og er um að ræða fyrstu aftökurnar í landinu frá í desember 2019. Japan er í hópi fárra iðnríka, auk Bandaríkjunum, þar sem enn er notast við dauðarefsingar.

Aftökurnar voru líka þær fyrstu í forsætisrráðherratíð Fumio Kishida, en hann tók við embættinu í október. Japanska ríkisstjórnin segir dauðarefsingar vera mikilvægt verkfæri til að koma í veg fyrir að fólk fremji „viðurstyggilega glæpi“, en um hundrað dauðadæmdir fangar eru nú í fangelsum í Japan.

Kyodo segir frá því að einn þeirra sem hafi verið tekinn af lífi í morgun hafi verið karlmaður sem sakfelldur var fyrir að hafa drepið sjö manns með hamri og hníf árið 2004, þeirra á meðan áttatíu ára gamla frænku sína og tvö systkinabörn. Hinir tveir voru dæmdir fyrir að hafa drepið tvo í leikjasal árið 2003.

Í frétt DW segir að þrátt fyrir gagnrýni ýmissa mannréttindasamtaka njóti dauðarefsingar enn stuðnings meðal japansks almennings. Er notast við hengingar og er föngum vanalega ekki tilkynnt um að til standi að framfylgja dómnum fyrr en fáeinum klukkustundum áður en það er gert.

Í heildina voru þrír teknir af lífi í Japan árið 2019. Árið áður voru fimmtán teknir af lífi og þar af þrettán sem áttu aðild að mannskæðri saríngasárás í neðanjarðarlestarkerfi Tókýó á tíunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×