Slökkviliðsmenn hafa nú náð að hemja útbreiðslu eldsins en hann brennur þó enn í einhverjum hluta byggingarinnar. Reykur stígur þó enn upp úr þinghúsinu en var mun meiri fyrir nokrum klukkustundum síðan.
Svo virðist sem enginn hafi verið inni í húsinu en í það minnsta hefur enginn slasast svo vitað sé. Enn er óvitað hvernig eldurinn kviknaði en Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, sagði í samtali við fréttamenn fyrir utan þinghúsið að einn hafi verið handtekinn og lögregla að yfirheyra hann í tengslum við brunann.
Þá virðist vera sem eldvarnakerfi þinghússins hafi ekki verkað sem skyldi. Brunabjöllur fóru ekki af stað fyrr en eftir að slökkviliðsmenn voru komnir á staðinn og úðarakerfið fór þá ekki af stað. Ramaphosa lofaði slökkviliðmenn og sagði þeim að þakka að ekki hafi farið verr.
Þinghúsið samanstendur af nokkrum byggingum, sú elsta var byggð árið 1884. Þingsalur neðri deildarinnar er í nýrri byggingum en þingsalur efri deildarinnar er í elstu byggingunni, þar sem eldurinn kviknaði. Eldurinn hefur að mestu verið einangraður við eldri bygginguna.