Erlent

Biden hvetur Bandaríkjamenn til að yfirgefa Úkraínu hið fyrsta

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Úkraínskur hermaður í skotgröfum við landamærin. Mikil spenna ríkir nú á svæðinu.
Úkraínskur hermaður í skotgröfum við landamærin. Mikil spenna ríkir nú á svæðinu. epa/Stanislav Kozliuk

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvetur nú alla Bandaríkjamenn sem staddir eru í Úkraínu til að yfirgefa landið hið snarasta. 

Biden sagði í viðtali við NBC stöðina að hlutir gætu farið á versta veg á skömmum tíma í landinu en Bandaríkjamenn óttast að innrás Rússa sé yfirvofandi.

Biden tók einnig fram í viðtalinu að bandarískir hermenn verði ekki sendir inn í landið til að ná í bandaríska ríkisborgara, verði af innrás Rússa. 

Rússar hafa þráfaldlega neitað fyrir að innrás sé yfirvofandi en þrátt fyrir það eru um hundrað þúsund hermenn við landamæri ríkjanna og í gær hófust viðamiklar heræfingar Rússa og Hvít-Rússa á landsvæði þeirra síðarnefndu. 

Boris Johnson forsætisráðherra Breta sagði í gær að öryggi Evrópu væri ógnað og að ástandið hafi ekki verið svona slæmt í áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×